Enski boltinn

Son myndi fórna markakóngstitlinum fyrir Meistaradeildarsæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heung-Min Son fagnar marki sínu gegn Arsenal.
Heung-Min Son fagnar marki sínu gegn Arsenal. Chris Brunskill/Fantasista/Getty Images

Heung-Min Son er í harðri baráttu við Liverpool-manninn Mohamed Salah um markakóngstitilinn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Kóreumaðurinn segist hins vegar vera tilbúinn að fórna titlinum ef það þýðir að Tottenham vinnur sér inn sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Son hefur verið iðinn við markaskorun þetta tímabilið og hefur séð til þess að markverðir deildarinnar hafa þurft að sækja boltann í netið í 21 skipti. Hann er einu marki á eftir efsta manni listans, Mohamed Salah, sem hefur skorað 22 mörk þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu,

Það er þó önnur barátta sem Kóreumaðurinn telur mun mikilvægari, en það er baráttan um Meistaradeildarsæti. Son og félagar hans í Tottenham sitja í fimmta sæti deildarinnar, aðeins einu stigi á eftir erkifjendum þeirra í Arsenal sem sitja í fjórða og seinasta Meistaradeildarsætinu.

„Það væri frábært að verða markakóngur, en fyrir okkur sem lið er mikilvægt að lenda í einu af efstu fjórum sætunum,“ sagði Son.

Kóreumaðurinn skoraði mark númer 21 á tímabilinu í öruggum 3-0 sigri Tottenham gegn erkifjendunum í Arsenal síðastliðinn Fimmtudag. Hann hefur nú skorað tíu mörk í seinustu átta leikjum, en aðspurður að því hvort hann myndi fórna einhverjum af þessum mörkum fyrir sæti í Meistaradeildinni stóð ekki á svörum.

„Já, hundrað prósent. Auðvitað er gott að maður sé að keppa að því að verða markakóngur, en ég hef sagt það áður að það að enda í topp fjórum er það mikilvægasta af öllu fyrir okkur,“ sagði Kóreumaðurinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×