Enski boltinn

Leeds bjargaði mikilvægu stigi | Leicester fór illa með Watford

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pascal Struijk reyndist hetja Leeds í dag.
Pascal Struijk reyndist hetja Leeds í dag. George Wood/Getty Images

Það var nóg um að vera í enska boltanum í dag og nú rétt í þessu var fimm leikjum að ljúka. Pascal Struijk reyndist hetja Leeds þegar hann bjargaði stigi í uppbótartíma gegn Brighton og Leicester vann 5-1 sigur gegn Watford.

Leeds þurfti svo sannarlega á stigum að halda er liðið tók á móti Brighton. Fyrir leikinn sat liðið í fallsæti og tap í dag hefði þýtt að liðið væri svo gott sem fallið úr ensku úrvalsdeildinni.

Það var því eins og blaut tuska í andlitið þegar Danny Welbeck kom gestunum í Brighton yfir eftir um tuttugu mínútna leik og sá þannig til þess að staðan var 0-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Allt stefndi svo í að sú yrði niðurstaðan. Alveg þangað til að Pascal Struijk janfaði metin fyrir heimamenn í Leeds með marki þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. 

Niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli og stigið lyfti Leeds upp úr fallsæti. Liðið er nú með 35 stig eftir 37 leiki, einu stigi meira en Burnley sem á leik til góða.

Þá unnu refirnir í Leicester öruggan 1-5 útisigur gegn föllnu liuði Watford. Heimamenn tóku forystuna snemma leiks, en James Maddison og Jamie Vardy sáu til þess að gestirnir fóru með 1-2 forystu inn í hálfleikinn.

Harvey Barnes bætti þriðja markinu við í upphafi síðari hálfleiks áður en Jamie Vardi breytti stöðunni í 1-4 þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Harvey Barnes var svo aftur á ferðinni stuttu fyrir leikslok og tryggði Leicester 1-5 sigur.

Úrslit dagsins

Tottenham 1-0 Burnley

Aston Villa 1-1 Crystal Palace

Leeds 1-1 Brighton

Watford 1-5 Leicester

West Ham 2-2 Manchester City

Wolves 1-1 Norwich


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×