Enski boltinn

Fjölskyldur leikmanna urðu fyrir kynþáttahatri á Goodison Park í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rico Henry fagnar sigurmarki sínu fyrir Brentford á móti Everton í gær.
Rico Henry fagnar sigurmarki sínu fyrir Brentford á móti Everton í gær. AP/Jon Super

Gærdagurinn var erfiður fyrir Everton í síðasta heimaleik tímabilsins og það lítur út fyrir að stuðningsmenn félagsins hafi orðið sér og sínum til skammar í mótlætinu.

Everton missti tvo leikmenn af velli með rautt spjald og missti niður 2-1 forystu í 2-3 tap á móti Brentford. Fyrir vikið er liðið langt frá því að vera öruggt með sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni fyrir lokaumferðina.

Tveir leikmenn Brentford, þeir Rico Henry og Ivan Toney, sögðu eftir leikinn að fjölskyldur þeirra hafi þurft að sitja undir kynþáttahatri á leiknum í gær.

Everton tekur ásakanir leikmanna Brentford mjög alvarlega og aðstoðar lögregluna við að finna sökudólgana.

„Það er ekkert pláss í fótbolta né samfélaginu fyrir rasisma,“ sagði í yfirlýsingu frá Everton.

„Við erum að aðstoða Merseyside lögregluna til að tryggja það að einstaklingurinn finnist og fái sína refsingu,“ sagði þar enn fremur.

Hinn 24 ára gamli Rico Henry skoraði sigurmark Brentford í leiknum. Hann sagði frá því á Twitter að móðir hans væri miður sín eftir að hafa orðið fyrir kynþáttahatri á leiknum.

Toney sagði líka að hann myndi gera allt í sínu valdi til að finna manninn sem áreitti hans fjölskyldu á leiknum og að passa upp á það að hann fengi sína refsingu.

Brentford gaf líka frá sér yfirlýsingu og sagðist ætla að styðja við bakið á Rico, Ivan og fjölskyldum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×