Enski boltinn

De Bruyne um Sterling: Gæti ekki verið ólíkari en ímynd hans í slúðurblöðunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin De Bruyne og Raheem Sterling fagna saman nmarki Manchester City á Turf Moor.
Kevin De Bruyne og Raheem Sterling fagna saman nmarki Manchester City á Turf Moor. Getty/Matt McNulty

Raheem Sterling fær mjög ósanngjarna meðferð hjá breskum fjölmiðlum ef marka má liðsfélaga hans og stórstjörnu hjá Manchester City.

Kevin De Bruyne talar mjög vel um Sterling í Players Tribune en þeir hafa unnið ófáa titlana saman sem lykilmenn hjá City.

„Áður en ég kom til Manchester City þá vissi ekki hvað ég átti að halda um þennan Raheem Sterling gæja. Ég hafði aldrei hitt hann og aðeins lesið um hann í blöðunum. Þeir héldu því fram að hann væri hrokagikkur og ég hélt að hann væri svona týpa eins og Englendingarnir kalla skíthaus,“ sagði Kevin De Bruyne við The Players' Tribune Football.

„Ég og Raheem náum mjög vel saman. Við komum til liðsins á sama tíma og það var mikil neikvæðni í kringum okkur báða. Ég var rusl frá Chelsea og hann var þessi ósmekklegi náungi sem hafði yfirgefið Liverpool fyrir peninga,“ sagði De Bruyne.

„Þegar þú lest svona um sjálfan þig þá hugsar þú: Þetta er fáránlegt, þetta fólk þekkir mig ekki einu sinni, en þetta hefur aftur á móti áhrif á það hvernig þú sér aðra leikmenn,“ sagði De Bruyne.

„Ég á ekki marga nána vini og það tekur mig langan tíma að opna mig fyrir fólki. Ég náði hins vegar að kynnast Raheem og synir okkar fæddust á sama tíma. Hann gæti ekki verið ólíkari en ímyndin hans í slúðurblöðunum,“ sagði De Bruyne.

Kevin De Bruyne og Raheem Sterling eru tveir markahæstu leikmenn Manchester Cty í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili, De Bruyne með 15 mörk og 7 stoðsendingar og Sterling með 12 mörk og 5 stoðsendingar.

Báðir eru þeir á góðri leið með því að vinna enska meistaratitilinn í fjórða skiptið með liði Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×