Enski boltinn

Nottingham Forest í úrslit umspilsins eftir sigur í vítaspyrnukeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leikmenn Nottingham Forest fögnuðu vel og innilega þegar sigurinn var í höfn.
Leikmenn Nottingham Forest fögnuðu vel og innilega þegar sigurinn var í höfn. Michael Regan/Getty Images

Nottingham Forest er á leið í hreinan úrslitaleik um sæti í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir 4-2 sigur gegn Sheffield United í vítaspyrnukeppni.

Nottingham Forest vann fyrri leik liðanna 2-1 á Bramall Lane, heimavelli Sheffield United, og var því í bílstjórasætinu fyrir leik kvöldsins.

Brennan Johnson kom heimamönnum í Nottingham Forest yfir á 19. mínútu leiksins og sá þannig til þess að staðan var 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Morgan Gibbs-White jafnaði svo metin fyrir Sheffield United snemma í síðari hálfleik áður en John Fleck kom liðinu yfir þegar um stundarfjórðungur lifði leiks.

Það reyndist seinasta mark venjulegs leiktíma og samanlögð niðurstaða því 3-3 og framlenging framundan. Hvorugu liðinu tókst svo að stela sigrinu í framlenginunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Oliver Norwood var fyrstur á punktinn fyrir Sheffield United, en hann lét Brice Samba í marki Nottingham Forest verja frá sér. Brennan Johnson var fyrstur fyrir Nottingham Forest og hann kom liðinu í forystu með öruggu víti.

Conor Hourihane skaut beint á markið fyrir gestina, en Brice Samba hreyfði sig ekki og varði sitt annað víti áður en Cafu kom heimamönnum í tveggja marka forystu.

Sander Berge var þriðji á punktinn fyrir Sheffield United og hann skoraði fyrsta mark gestanna í vítaspyrnukeppninni, en Steve Cook kom Nottingham Forest í 3-1.

Iliman Ndiaye þurfti því að skora til að halda þessu á lífi og það gerði hann af miklu öryggi. Joe Lolley fékk þá tækifæri til að klára dæmið fyrir heimamenn, en setti boltann hátt yfir.

Gestirnir fengu því aðra líflínu, en Brice Samba varði sína þriðju spyrnu, í þetta skipti frá Morgan Gibbs-White. Niðurstaðan varð því 4-2 sigur Nottingham Forest í vítaspyrnukeppni og liðið er á leið í úrslit um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×