Enski boltinn

Hrun í mörkum enskra framherja í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ensku framherjarnir Jadon Sancho og Marcus Rashford hjá Manchester United stóðu ekki undir væntingum á þessari leiktíð en hér fagna þeir saman marki á móti Southampton á Old Trafford
Ensku framherjarnir Jadon Sancho og Marcus Rashford hjá Manchester United stóðu ekki undir væntingum á þessari leiktíð en hér fagna þeir saman marki á móti Southampton á Old Trafford Getty/Laurence Griffiths

Enskir framherjar voru oft ekki á skotskónum á nýloknu tímabili eins og sést vel í samantekt hjá Sky Sports.

Enski landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate þarf líklega að fara að hafa smá áhyggjur af þróun mála þegar kemur að því að enskir framherjar eru í svolitlum vandræðum að koma boltanum í markið.

Markahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar 2021-22 voru Egyptinn Mohamed Salah hjá Liverpool, Kóreumaðurinn Son Heung-Min hjá Tottenham og Portúgalinn Cristiano Ronaldo hjá Manchester United.

Talning á mörkum enskra framherja í ensku úrvalsdeildinni sýnir að þeir skoruðu samtals 142 mörk á leiktíðinni sem var tuttugu prósent fækkun frá tímabilinu á undan.

Tímabilið 2020-21 voru mörkin 176 og tímabilið 2019-20 voru ensku mörkin 191. Það er því öllum ljóst að mörkum ensku framherjanna fer fækkandi með hverju tímabili.

Þetta er líka lítill markafjöldi í samanburði við 1993-94 tímabilið þegar enskir framherjar skoruðu 451 mark en þá var deildin líka skipuð 22 liðum með 42 leikjum á hvert lið.

Helstu ensku markaskorararnir voru menn eins og Harry Kane, Raheem Sterling, Marcus Rashford, Jadon Sancho, Jamie Vardy, Dominic Calvert-Lewin, Ollie Watkins, Callum Wilson og Danny Ings en þeirra framlag dugði þó ekki til við að laga þessa slöku markatölfræði.

Manchester United mennirnir Marcus Rashford og Jadon Sancho gekk báðum illa fyrir framan markið og þeir Vardy, Calvert-Lewin og Patrick Bamford voru mikið meiddir.

Kane var markahæsti enski leikmaðurinn með sautján mörk en Vardy var annar með fimmtán mörk og Sterling skoraði síðan þrettán mörk. Jarrod Bowen og Ivan Toney skoruðu síðan báðir tólf mörk.

Aston Villa skilaði flestum enskum mörkum eða átján en næst voru Tottenham (17 mörk) og Leicester City (15). Enskir framherjar fengu að spila flestar mínútur hjá Everton en Manchester United var þar í þriðja sæti á eftir Villa.

Það má lesa meira um þessa samantekt Sky Sports hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×