Enski boltinn

Byrjaður að sækja leikmenn frá Red Bull samsteypunni til Leeds

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Brenden Aaronson.
Brenden Aaronson. vísir/Getty

Bandaríski sóknartengiliðurinn Brendan Aaronson mun ganga til liðs við enska úrvalsdeildarliðið Leeds United í sumar.

Þar mun hann hitta fyrir landa sinn Jesse Marsch, sem tók við stjórnartaumunum hjá Leeds um mitt tímabil og náði að gera vel í að bjarga liðinu frá falli úr úrvalsdeildinni.

Hinn tvítugi Aaronson kemur frá austurríska úrvalsdeildarliðinu Red Bull Salzburg þar sem hann gerði fjögur mörk á nýafstaðinni leiktíð.

Leeds greiðir 25 milljónir punda fyrir kauða sem gerir samning til ársins 2027.

Marsch þekkir vel til í hjá austurríska Red Bull liðinu enda var hann þjálfari þess frá 2019-2021 og var við stjórnvölin þegar tekin var ákvörðun um að kaupa téðan Aaronson frá Philadelphia Union í heimalandinu.

Spennandi verður að fylgjast með Leeds á leikmannamarkaðnum í sumar og ekki ólíklegt að Marsch muni leita til fleiri Red Bull liða sem leika víða um heim.

Marsch hefur unnið sig upp metorðastigann hjá Red Bull liðunum en þjálfaraferill hans náði fyrst flugi þegar hann stýrði New York Red Bulls í heimalandi sínu frá 2015 og þar til hann tók við Red Bull Salzburg þaðan sem hann var hækkaður í tign og ráðinn sem stjóri RB Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni.

Marsch stýrði Leipzig þó stutt þar sem hann var rekinn í desember 2021, tveimur mánuðum áður en Leeds leitaði til kappans í kjölfar þess að hafa rekið Marcelo Bielsa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×