Enski boltinn

Áhorfendamet slegið í ensku úrvalsdeildinni

Atli Arason skrifar
Endurkoma Cristiano Ronaldo í Manchester United hefur sennilega laðað einhverja á Old Trafford.
Endurkoma Cristiano Ronaldo í Manchester United hefur sennilega laðað einhverja á Old Trafford. AP Photo/Jon Super

73 ára gamalt áhorfendamet var slegið á tímabilinu sem leið á Englandi en aldrei hafa jafn margir mætt á vellina þar í landi.

Meðal aðsókn á alla 20 leikvellina var 39.989 manns, sem slær fyrra metið frá leiktímabilinu 1948/49 sem stóð í 38.776 manns. Það er breski fjölmiðlamaðurinn Nick Harris sem vekur athygli á þessu á twitter.

Lang mesta mætingin er á Old Trafford en 73.156 manns mæta að meðaltali á þennan heimavöll Manhester United, sem er tæplega 14 þúsundum fleiri en mæta að meðaltali á næst fjölmennasta völlinn, heimavöll Arsenal. 59.811 manns mæta að meðaltali á Emirates völlinn. 

Heimavöllur West Ham, London Stadium er í þriðja sæti með 58.513 áhorfendur og Tottenham Hotspur Stadium er í fjórða sæti með 56.523 áhorfendur að meðaltali. Liðin í efstu fjórum sætunum eru einu liðin í efstu deild á Englandi með leikvanga sem taka yfir 60.000 manns.

Englandsmeistarar Manchester City eru í sjötta sæti með 52.738 áhorfendur að meðaltali, einu sæti á eftir Liverpool. Mætingin á Anfield er 280 manns betri en á Etihad vellinum. 53.008 mæta á Anfield að meðaltali.

Chelsea er í 10. sæti en 36.906 manns mæta að meðaltali á heimavöll þeirra, Stamford Bridge.

Brentford rekur svo lestina þar sem 16.907 áhorfendur mæta að meðaltali á heimavelli þeirra. Hægt er að skoða samantekt Transfermarkt af áhorfendatölum með því að smella hér

Þetta áhorfendamet verður sennilega ekki slegið á næsta tímabili þar sem að liðin sem falla úr úrvalsdeildinni, Norwich, Watford og Burnley, taka samanlagt 70.750 áhorfendur í sæti. Liðin þrjú sem koma upp í úrvalsdeildina í þeirra stað, Fulham, Bournemouth og Nottingham Forest, hafa samanlagðan sætafjölda upp á 61.363 á sínum heimavöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×