Enski boltinn

Leeds og Chelsea gætu skipt á leik­mönnum

Atli Arason skrifar
Hakim Ziyech, leikmaður Chelsea, gæti verið skipimyntin sem Chelsea þarf fyrir Raphinha.
Hakim Ziyech, leikmaður Chelsea, gæti verið skipimyntin sem Chelsea þarf fyrir Raphinha. Getty Images

Leeds býst við því að missa Raphinha frá sér í sumar og horfir liðið nú til Hakim Ziyech, leikmanns Chelsea, sem hugsanlegan arftaka Raphinha á vængnum hjá Leeds.

Leeds hefur skellt 65 milljón punda verðmiða á Raphinha sem virðist færast nær því að yfirgefa félagið með hverjum degi sem líður. Arsenal, Tottenham, Chelsea og Barcelona hafa öll spurst fyrir um leikmanninn en leikmaðurinn á sjálfur að hafa náð samkomulagi við Barcelona.

Blaðamaðurinn Ben Jacobs segist hafa heimildir innan herbúða Leeds að félagið horfi til Hakim Ziyech, leikmanns Chelsea, fari svo að Raphinha yfirgefi Leeds.

Chelsea er í leit að öðrum vængmanni en ásamt Raphinha hefur félagið einnig verið orðað við Raheem Sterling, leikmann Manchester City. Talið er að leiktími Ziyech hjá Chelsea muni minnka á næsta tímabili. 

Leeds er ekki að leitast eftir því að fara með peningana sem þeir gætu fengið fyrir Raphinha beint í bankann samkvæmt Jacobs, heldur mun liðið þurfa að styrkja sig í kjölfarið. Það gæti því farið svo að Chelsea vinni kapphlaupið um Brassann ef liðið getur notað Ziyech sem skiptimynt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×