Enski boltinn

Búast við því að Ronaldo verði áfram hjá United þrátt fyrir fréttir af pirringi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo verður áfram í herbúðum Manchester United ef marka má heimildarmenn Sky Sports.
Cristiano Ronaldo verður áfram í herbúðum Manchester United ef marka má heimildarmenn Sky Sports. Bryn Lennon/Getty Images

Þrátt fyrir fréttir af pirringi Cristiano Ronaldo yfir metnaðarleysi Manchester United á leikmannamarkaðinum er búist við því að portúgalska stórstjarnan verði áfram í herbúðum félagsins á næsta tímabili.

Hinn 37 ára Ronaldo er að hefja seinna samningsár sitt hjá Manchester United og í gær birtust fréttir af því að hann væri tilbúinn að yfirgefa félagið í sumar vegna metnaðarleysis á leikmannamarkaðinum.

Heimildarmenn Sky Sports segja þó að búist sé við því að Ronaldo muni mæta til æfinga hjá þeim rauðklæddu þegar undirbúningstímabilið hefst í byrjun júlí. Vegna þátttöku sinnar í landsliðsverkefni með portúgalska landsliðinu fyrr í mánuðinum gæti Ronaldo þó fengið lengra frí en nokkrir af liðsfélögum sínum sem tóku ekki þátt í landsliðsverkefnum.

Nýráðinn knattspyrnustjóri Manchester United, Erik ten Hag, hefur látið hafa eftir sér að Ronaldo sé svo sannarlega í hans plönum á næsta tímabili.

Stjórinn hefur einnig sagst ætla að byggja upp nýtt United-lið. Hingað til hafa leikmenn á borð við Paul Pogba, Jesse Lingard, Edinson Cavani, Nemanja Matic og Juan Mata fengið grænt ljós á að yfirgefa liðið, en í staðin hefur liðið ekki keypt einn einasta leikmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×