Enski boltinn

Segja að Chelsea sé að undirbúa tilboð í Ronaldo

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo í leik gegn Chelsea á seinustu leiktíð.
Cristiano Ronaldo í leik gegn Chelsea á seinustu leiktíð. Michael Steele/Getty Images

Ef marka má hina ýmsu erlendu miðla er enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea að undirbúa 14 milljón punda tilboð í portúgölsku stórstjörnuna Cristiano Ronaldo.

Eins og áður hefur verið greint frá hér á Vísi hefur Ronaldo óskað eftir því að fá að yfirgefa herbúðir Manchester United í sumar. Ástæða þess að Ronaldo vill fara er sögð vera að hann vilji spila í Meistaradeild Evrópu, en Manchester United missti af sæti í þessari stærstu bikarkeppni heims á seinasta tímabili.

Samkvæmt heimildarmönnum enska miðilsins Football Insider er Chelsea nú að undirbúa 14 milljón punda tilboð í þennan markahæsta leikmann sögunnar. Todd Boehly, einn af nýjum eigendum Chelsea, hefur átt í viðræðum við Jorge Mendes, umboðsmann Ronaldo.

Þá er Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, sagður vilja endurmóta sóknarlínu liðsins, en framherjinn Romelu Lukaku fór frá félaginu til Inter Milan á láni fyrr í sumar. Þá er enski framherjinn Raheem Sterling að öllum líkindum á leið til félagsins frá Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×