Enski boltinn

Conte sækir enn einn leikmanninn til Tottenham

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Djed Spence er genginn í raðir Tottenham Hotspur.
Djed Spence er genginn í raðir Tottenham Hotspur. Tottenham Hotspur FC/Tottenham Hotspur FC via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham Hotspur heldur áfram að bæta við sig leikmönnum í félagsskiptaglugganum sem nú er tæplega hálfnaður. Djed Spence er kominn til liðsins frá Middlesbrough, en hann er sjötti leikmaðurinn sem kemur til liðsins í sumar.

Tottenham greiðir 12,5 milljónir punda fyrir þennan 21 árs gamla hægri bakvörð, en heildarverðið gæti farið upp í 20 milljónir punda ef árangurstengdar bónusgreiðslur eru teknar með í reikninginn.

Spence lék lykilhlutverk í liði Nottingham Forest á seinasta tímabili þar sem hann var á láni frá Middlebrough og hjálpaði liðinu að vinna sér inn sæti í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta skipti á þessari öld.

Leikmaðurinn á að baki þrjá leiki fyrir U21 árs landslið Englands, en Tottenham hefur verið á höttunum eftir honum frá því að glugginn opnaði.

Eins og áður segir er Spence sjötti leikmaðurinn sem gengur í raðir Tottenham á þessu tímabili. Áður hafði liðið fengið þá Fraser Forster, Ivan Perisic, Yves Bissouma, Richarlison og Clement Lenglet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×