Enski boltinn

„Vá, næst sjá þeir okkur kannski á bensínstöðinni“

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland í ísbaði á æfingu Manchester City.
Erling Haaland í ísbaði á æfingu Manchester City. Getty/Matt McNulty

Norski markaskorarinn Erling Haaland er mættur í enska boltann og það hefur óhjákvæmilega í för með sér meiri umfjöllun um hann í ensku götublöðunum. Pabbi hans gerði grín að fréttaflutningi The Sun í gær.

Blaðamenn The Sun ákváðu að gera sér mat úr því að mynd náðist af Erling Haaland með Alfie pabba sínum í verslun Sainsbury að kaupa ýmsar vörur fyrir heimilið.

Þeir fóru yfir það hvað hinn 21 árs gamli Haaland, sem Manchester City keypti frá Dortmund fyrir 51 milljón punda í sumar, og pabbi hans hefðu sett í innkaupakerruna. Þar á meðal var hraðsuðuketill, ruslafata, klósettpappír, skálar og flaska af tómatsósu.

Alfie ákvað að skjóta á þennan fréttaflutning og skrifaði: „Vá, næst sjá þeir okkur kannski á bensínstöðinni. Dísel, bensín… 95, 98?“

Þó að flestir hafi sjálfsagt lítinn áhuga á að vita hvaða vörur feðgarnir voru að versla þá er þess beðið með mikilli eftirvæntingu að sjá hvernig Erling Haaland reiðir af í ensku úrvalsdeildinni.

Tímabilið hjá City hefst eftir tíu daga með leik við Liverpool um Samfélagsskjöldinn en fyrsti deildarleikur liðsins er svo gegn West Ham 7. ágúst. Áður en að þessum leikjum kemur mun Haaland væntanlega spila sínar fyrstu mínútur í City-treyjunni í vináttuleik gegn mexíkóska liðinu América í nótt eða gegn Bayern München á laugardagskvöld.

Haaland skoraði 83 mörk í 87 leikjum fyrir Dortmund áður en hann skrifaði undir samning við City sem gildir til ársins 2027.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×