Enski boltinn

Everton steinlá og Lampard varar liðið við annarri fallbaráttu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Frank Lampard segir að leikmenn Everton þurfi að gera betur til að sleppa við aðra fallbaráttu.
Frank Lampard segir að leikmenn Everton þurfi að gera betur til að sleppa við aðra fallbaráttu. Brace Hemmelgarn/Everton FC via Getty Images

Undibúningstímabil enska úrvalsdeildarliðsins Everton fer ekki vel af stað, en liðið steinlá 4-0 er þeir bláklæddu heimsóttu Minnesota United í Bandaríkjunum í nótt. Frank Lampard, þjálfari Everton, varaði leikmenn liðsins við annarri fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni.

Everton bjargaði sér endanlega frá falli á seinustu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni með 3-2 sigri gegn Crystal Palace í næst seinustu umferð deildarinnar. Dominic Calwert-Lewin skoraði sigurmark liðsins á 85. mínútu eftir að Crystal Palace hafði komist í 0-2 í fyrri hálfleik.

Eins og áður segir tapaði liðið 4-0 gegn Minnesota United í nótt, en Everton hefur þá tapað báðum leikjum sínum á undirbúningstímabilinu. Everton mátti þola 2-0 tap gegn Arsenal í fyrsta leik sínum á þessu undirbúningstímabili.

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Everton, var ómyrkur í máli þegar hann ræddi við blaðamenn eftir tapið í nótt. Hann sagði að bæði hann og leikmenn liðsins þyrftu að gera betur til að forðast aðra fallbaráttu.

„Leikmenn liðsins verða að skilja að við vorum í fallbaráttu stóran hluta seinasta tímabils,“ sagði Lampard.

„Við áttum frábært kvöld [á móti Crystal Palace] og náðum í frábær úrslit sem voru söguleg fyrir félagið. En um leið og það var búið þá lagði ég það til hliðar og leikmennirnir verða að gera það líka.“

„Við vorum í þessari baráttu af ástæðu og ef við viljum ekki lenda í sömu stöðu aftur þá þurfa leikmennirnir að gera betur. Ég þarf að gera betur.“

„Það er mikið sem við þurfum að pæla í og það er mikil vinna framundan,“ sagði Lampard að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×