Enski boltinn

Manchester United ætlar ekki að selja Martial þrátt fyrir áhuga frá Ítalíu

Atli Arason skrifar
Anthony Martial skorar eitt af mörkum sínum á undirbúningstímabilinu.
Anthony Martial skorar eitt af mörkum sínum á undirbúningstímabilinu. Getty Images

Það er ekki langt um liðið síðan Manchester United reyndi að gera allt til að losa Anthony Martial af launaskrá sinni en í dag er staðan önnur þar sem franski framherjinn virðist vera að ganga í gegnum endurnýjaða lífdaga hjá félaginu.

Ítalska félagið Juventus er í leit af sóknarmanni eftir að Alvaro Morata fór aftur til Atletico Madrid eftir að hafa verið á láni hjá Juventus. Liðið missti einnig Paulo Dybala á frjálsri sölu til Roma fyrr í sumar.

Martial er einn af þeim leikmönnum sem Juventus vill að leiði sóknarlínu sína á næsta leiktímabili en Manchester United hefur engan áhuga á því að selja frakkan samkvæmt fréttum breska miðilsins Mirror

Framtíð þessa 26 ára gamla sóknarmanns í Manchester virtist vera lokið þegar hann var sendur á láni til Sevilla í upphafi þessa árs eftir að hafa lent upp á kant við bráðabirgðastjóra liðsins, Ralf Rangnick.

Rangnick hefur hins vegar yfirgefið Manchester United og nú virðist allt stefna í að Martial muni leiða sóknarlínu félagsins á næstu leiktíð, sérstaklega í ljósi þess að framtíð Cristiano Ronaldo er í lausu lofti. 

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, var opin fyrir því að hleypa Martial í burtu frá félaginu fyrr í sumar en eftir óvissuna með Ronaldo og flotta byrjun Frakkans á undirbúningstímabilinu þar sem hann hefur skorað 3 mörk í 4 leikjum, þá vill Ten Hag halda Martial hjá Manchester United.

Fyrsti leikur Manchester United í ensku úrvalsdeildinni er gegn Brighton þann 7. ágúst.


Tengdar fréttir

Marti­al segir Ralf ljúga

Lífið virðist ekki leika við Manchester United þessa dagana. Liðið henti frá sér 2-0 forystu gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni og nú hefur Anthony Martial, franski framherji liðsins, ásakað þjálfara þess um lygar.

Martial nýtur sín vel undir stjórn Erik ten Hag

Manchester United hefur gengið vel á undirbúningstímabilinu en liðið hafði í dag betur gegn Crystal Palace í æfingaleik liðanna sem spilaður var í Melbourne í Ástralíu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×