Enski boltinn

West Ham kaupir hávaxinn ítalskan landsliðsframherja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianluca Scamacca sést hér máta búning West Ham eftir að kaupin og samningurinn voru í höfn.
Gianluca Scamacca sést hér máta búning West Ham eftir að kaupin og samningurinn voru í höfn. Instagram/@westham

Enska úrvalsdeildarliðið West Ham hefur gengið frá kaupum á hinum stæðilega ítalska framherja Gianluca Scamacca.

West Ham borgar Sassuolo 30,5 milljónir punda fyrir leikmanninn eða yfir fimm milljarða íslenskra króna.

Scamacca er 23 ára gamall en hann gerir fimm ára samning við Lundúnafélagið.

Scamacca hefur leikið sjö landsleiki fyrir Ítalíu og varð næstmarkahæstur meðal ítalskra leikmanna í ítölsku deildinni á síðustu leiktíð með sextán mörk.

„Ég hef beðið lengi eftir þessari stundu. Það hefur verið draumur minn að spila í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Gianluca Scamacca.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að spila með West Ham og mér finnst þetta vera fullkomið lið fyrir mig. Þeir sýndu mér að þeir vildu virkilega fá mig,“ sagði Scamacca.

„Ég get ekki beðið eftir því að sýna stuðningsmönnunum hvað ég get gert í búningi West Ham. Ég vona að við elskum hvert annað,“ sagði Scamacca.

Scamacca var líka orðaður við Paris Saint Germain og Juventus. Hann var hjá unglingaliðum Roma og Lazio á sínum tíma en fékk sitt fyrsta tækifæri hjá hollenska félaginu PSV Eindhoven.

Scamacca snéri aftur til Ítalíu eftir átján mánuði í Hollandi og samdi þá við Sassuolo.

Sassuolo er stór og mikill, 195 sentimetrar á hæð. Hann er fjórði nýi leikmaður West Ham í sumar en hinir eru varnarmaðurinn Nayef Aguerd, miðjumaðurinn Flynn Downes og markvörðurinn Alphonse Areola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×