Enski boltinn

United staðfestir komu Martínez

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lisandro Martínez er mættur til Manchester.
Lisandro Martínez er mættur til Manchester. Manchester United/Manchester United via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United staðfesti í dag komu argentínska varnarmannsins Lisandro Martínez fá Ajax.

Martínez skrifar undir fimm ára samning við United, en möguleiki er á eins árs framlengingu á samningnum. United greiðir 57 milljónir punda fyrir leikmanninn, en það samsvarar tæplega níu og hálfum milljarði króna.

Eins og áður segir kemur Martínez frá hollenska liðinu Ajax þar sem hann hefur leikið frá árinu 2019. Þessi 24 ára miðvörður kannast ágætlega við nýráðinn knattspyrnustjóra United, Erik ten Hag, en hann var stjóri Ajax á tíma leikmannsins hjá liðinu.

Alls lék Martínez 120 leiki fyrir Ajax á tíma sínum hjá félaginu, en hann á einnig að baki sjö leiki fyrir argentínska landsliðið. Þar á meðal lék hann einn leik fyrir Argentínu er liðið tryggði sér Suður-Ameríkutitilinn, Copa América.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×