Enski boltinn

Hver er „slátrarinn frá Amsterdam“ sem Man. United borgaði níu milljarða fyrir?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lisandro Martinez í búningi Manchester United eftir að gengið hafði verið frá samningnum og kaupunum frá Ajax.
Lisandro Martinez í búningi Manchester United eftir að gengið hafði verið frá samningnum og kaupunum frá Ajax. Getty/Manchester United

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, náði loksins í sinn mann í gær þegar United gekk frá kaupunum á Lisandro Martinez frá hollenska félaginu Ajax.

Kaupin hafa legið lengi í loftinu en það var strax ljóst að þetta var leikmaður sem nýi stjórinn á Old Trafford lagði mikla áherslu að fá til félagsins.

Þetta er í annað skiptið sem Ten Hag kaupir argentínska varnarmanninn en hann náði í hann til Ajax fyrir þremur árum síðan.

En hver er þessi 24 ára gamli miðvörður sem nýi stjóri Manchester United er svona hrifinn af?

Martinez heldur áfram að spila undir stjórn Erik ten Hag og þekkir því leikstíl hollenska stjórans betur en flestir. Þeir hafa unnið tvo hollenska meistaratitla saman á síðustu þremur árum.

Argentínumaðurinn spilaði þó ekki bara sem miðvörður undir stjórn Ten Hag því fyrstu tvö tímabilin var að hann að spila í báðum bakvarðarstöðunum og sem varnartengiliður inn á miðjunni. Á síðasta tímabilið spilaði hann þó eingöngu sem miðvörður

Stuðningsmenn United ættu að hafa mjög gaman af því að lesa í tölfræði Martinez sem var glæsileg og mun betri en hjá öllum varnarmönnum liðsins á síðasta tímabili.

Hann er kannski bara 175 sentimetrar á hæð en það kom þó ekki í veg fyrir að hann vann fleiri skallaeinvígi á síðustu leiktíð en hinn 194 sentimetra hái Harry Maguire.

Hann gaf fleiri sendingar, fleiri sendingar fram á völlinn, vann fleiri skallaeinvígi, komst inn í fleiri sendingar og vann oftar boltann en allir United varnarmennirnir en auk þess vann hann fleiri tæklingar og kláraði fleiri einleiki en miðverðir United liðsins.

Gælunafnið „Slátrarinn frá Amsterdam“ er hugsað á jákvæðan hátt en ekki fyrir grófan leik. Hann slátrar mönnum í loftinu en gerir það löglega. Hann fékk þannig aðeins sex gul spjöld í 36 leikjum á síðasta tímabili en til samanburðar þá fékk Luke Shaw ellefu gul og Maguire níu.

„Ég er kallaður carnicero (slátrarinn) af Amsterdam. Við Argentínumenn gerum allt af ástríðu og þegar ég fer inn á völlinn þá berst ég fyrir öllum boltum. Ef ég þarf að stíga yfir lík þá mun ég gera það. Ég vil vinna öll 50-50 samstuð því ég veit að ég er þar að berjast fyrir alla meðlimi fjölskyldu minna og fyrir vini mína. Það er tilfinningin sem ég hef,“ sagði Lisandro Martinez í nýlegu viðtali.

Þrátt fyrir hörkuna og grimmdina þá keppast menn líka við að hrósa Martinez fyrir yfirvegun á boltanum, útsjónarsemi og góðar sendingar. Hann er úrræðagóður og það hentar leikstíl Erik ten Hag vel.

Það verður hins vegar næg samkeppni fyrir hann því hjá Manchester United eru nú sex miðverðir eða þeir Harry Maguire, Raphael Varane, Victor Lindelof, Eric Bailly og Phil Jones.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×