Enski boltinn

Gerrard tók fyrir­liða­bandið af lands­liðsmið­verðinum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard vill fá meira frá landsliðsmiðverði sínum og vill að hann einbeiti sér meira að sínum eigin leik.
Steven Gerrard vill fá meira frá landsliðsmiðverði sínum og vill að hann einbeiti sér meira að sínum eigin leik. Getty/Neville Williams

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Aston Villa, ákvað að gera breytingu á fyrirliða liðsins fyrir komandi tímabil í ensku úrvalsdeildinni.

John McGinn er nýr fyrirliði liðsins en tekur við því starfi af miðverðinum Tyrone Mings. Gerrard vill að Mings einbeiti sér meira að sínum eigin leik.

Mings hafði verið fyrirliði Aston Villa frá því í ágúst 2021 eða síðan að félagið seldi Jack Grealish til Manchester City.

McGinn er 27 ára gamall skoskur miðjumaður sem hefur verið hjá Villa síðan 2018.

„Ég hef rætt þetta við Tyrone Mings og útskýrt mínar ástæður fyrir því að ég tók þessa ákvörðun. Það sem er mikilvægara er að með því að losna við ábyrgðina að bera fyrirliðabandið þá fær Tyrone tækifæri til að einbeita sér að sínum leik. Bæði hann og liðið geta bara grætt á því,“ sagði Steven Gerrard.

„John hefur sýnt það með frammistöðu sinni inn á vellinum að hann er tilbúinn að taka við fyrirliðabandinu en einnig með hugarfari og þátttöku sinni á æfingum. Hann er vinsæll í klefanum og kröfuharður bæði á sig og aðra,“ sagði Gerrard.

Markvörðurinn Emiliano Martínez verður varafyrirliði liðins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×