Enski boltinn

Liverpool neyðist líklega til að nota þriðja markvörðinn í leiknum um Samfélagsskjöldinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Adrián mun að öllum líkindum verja mark Liverpool er liðið mætir Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn.
Adrián mun að öllum líkindum verja mark Liverpool er liðið mætir Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn. Roland Krivec/DeFodi Images via Getty Images

Enski boltinn rúllar af stað um helgina þegar keppni í ensku B-deildinni hefst annað kvöld. Á sunnudaginn munu svo Liverpool og Manchester City keppa um fyrsta titil tímabilsins, Samfélagsskjöldinn.

Keppt er um samfélagsskjöldin ár hvert helgina áður en enska úrvalsdeildin hefst. Þar mætast sigurvegarar ensku úrvalsdeildarinnar og FA-bikarsins, en í ár eru það Liverpool og Manchester City sem eigast við. City tryggði sér Englandsmeistaratitilinn í lokaumferð deildarinnar í vor, en Liverpool vann FA-bikarinn eftir sigur gegn Chelsea í úrslitaleik keppninnar á seinasta tímabili.

Liverpool þarf þó líklegast að gera sér það að góðu að leika með þriðja markvörð liðsins í rammanum. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, staðfesti það í dag að Alisson Becker, aðalmarkvörður liðsins, væri meiddur og tæki því ekki þátt í leiknum.

Þá er Caoimhín Kelleher, varamarkvörður Liverpool, einnig meiddur og mun því að öllum líkindum ekki taka þátt í leiknum. Hinn 35 ára Spánverji Adrián mun því líklegast verja mark Liverpool þegar liðið berst um Samfélagsskjöldinn næstkomandi sunnudag.

Stuðningsmenn Liverpool þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af því að aðalmarkvörður liðsins verði frá í lengri tíma því Klopp býst við því að Brassinn verði klár fyrir fyrsta leik liðsins í ensku úrvalsdeildinni gegn Fulham á laugardaginn eftir rúma viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×