Enski boltinn

„Cristiano Ronaldo færi í Liverpool ef hann ætti möguleika á því“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo vill spila í Meistaradeildinni og það fær hann ekki sem leikmaður Manchester United í vetur.
Cristiano Ronaldo vill spila í Meistaradeildinni og það fær hann ekki sem leikmaður Manchester United í vetur. Getty/James Gill

Cristiano Ronaldo reynir nú allt til þess að komast frá Manchester United og í lið sem spilar í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Fyrrum enskur landsliðsmaður er allt annað en hrifinn af fréttunum sem sífellt berast af einum besta fótboltamanni sögunnar.

Sá heitir Gabriel Agbonlahor og gerði góða hluti með Aston Villa á árum áður. Hann segir að Ronaldo sýni United enga hollustu með þessum tilraunum sínum til að losna.

Manchester United hefur margoft gefið það út að Ronaldo sé ekki til sölu en hann hefur ekkert verið í kringum liðið á undirbúningstímabilinu og mætti aðeins á svæðið í vikunni til að reyna að fá sig lausan samkvæmt fréttum enskra miðla.

„Cristiano Ronaldo færi í Liverpool í sumar ef hann ætti möguleika á því. Þeir eru aðalerkifjendur Man. United en þetta snýst allt um Ronaldo sjálfan,“ sagði Gabriel Agbonlahor í viðtali við talkSPORT.

„Hann fer þangað sem hann getur spilað Meistaradeildarfótbolta, til að bæta við markatölfræði sína og vinna titla. Ég held að Ronaldo beri enga hollustu til United, Real Madrid eða Juventus,“ sagði Agbonlahor en það eru þrjú síðustu félögin sem Portúgalinn spilaði með.

Ronaldo er orðinn 37 ára gamall og á því ekki mörg tímabil eftir í fremstu röð. Hann er markhæsti fótboltamaður sögunnar og sá sem hefur skorað flest mörk í sögu Meistaradeildarinnar auk þess að spila flesta leiki og vinna hana fimm sinnum á ferlinum.

Hann fór ekki með United í æfingaferðina til Tælands og Ástralíu en mætti svo á æfingasvæðið í Carrington með umboðsmann sinn, Jorge Mendes, með í för.

Manchester United endaði bara í sjötta sæti í ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð þrátt fyrir átján mörk frá Ronaldo og liðið spilar því í Evrópudeildinni á komandi tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×