Enski boltinn

Gjörbreyttur leikstíll Burnley undir stjórn Kompany

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kompany ræðir við aðstoðarmann sinn, Craig Bellamy, á hliðarlínunni í gærkvöldi.
Kompany ræðir við aðstoðarmann sinn, Craig Bellamy, á hliðarlínunni í gærkvöldi. vísir/Getty

Burnley hóf leik í ensku B-deildinni í fótbolta í gærkvöldi eftir að hafa fallið úr ensku úrvalsdeildinni síðastliðið vor.

Ian Maatsen gerði eina mark Burnley í 0-1 sigri á Huddersfield en um var að ræða opnunarleik ensku B-deildarinnar þar sem boltinn heldur áfram að rúlla í dag. 

Manchester City goðsögnin Vincent Kompany tók við stjórnartaumunum hjá Burnley í sumar og ef marka má spilamennsku liðsins í frumraun Belgans hefur hann gert stórfelldar breytingar á leikstíl liðsins. 

Jóhann Berg Guðmundsson er á mála hjá Burnley en hann var ekki með vegna meiðsla í gær. Hann virtist verulega ánægður með spilamennsku liðsins.

Burnley hefur verið þekkt fyrir að leggjast lágt á völlinn undanfarin ár og spilaði liðið oft á tíðum magnaðan varnarleik undir stjórn Sean Dyche í ensku úrvalsdeildinni. Allt annað var upp á teningnum í leiknum í gær þar sem Burnley spilaði nýmóðins fótbolta. Tölfræðin úr leiknum sýnir það glögglega og er eitthvað sem stuðningsmenn Burnley hafa ekki séð í langan tíma.

Liðið var með boltann 70% af leiktímanum en meðaltal liðsins með boltann á síðustu leiktíð var tæp 40% og var Burnley það lið sem var minnst með boltann í úrvalsdeildinni. 

Leikmenn liðsins tengdu saman 507 sendingar í gærkvöldi en meðaltal liðsins í fyrra voru 324 sendingar í leik. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×