Enski boltinn

United íhugar Neves ef félaginu mistekst að krækja í De Jong

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Manchester United gæti skoðað möguleikann á því að fá Ruben Neves ef liðinu mistekst að krækja í Frenki de Jong.
Manchester United gæti skoðað möguleikann á því að fá Ruben Neves ef liðinu mistekst að krækja í Frenki de Jong. Jack Thomas - WWFC/Wolves via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United hefur verið á höttunum eftir hollenska miðjumanninum Frenki de Jong í allt sumar, en illa gengur að sannfæra leikmanninn um að yfirgefa Barcelona. Félagið skoðar nú Ruben Neves, miðjumann Wolves, ef De Jong kemur ekki.

United hefur lengi haft auga á Neves sem hefur leikið 212 leiki fyrir Wolves og skorað í þeim 24 mörk.

Bruno Lage, knattspyrnustjóri Wolves, sagði fyrr á þessu ári að félagið hafi sett hundrað milljón punda verðmiða á leikmanninn eftir að fréttir bárust af áhuga frá United, Arsenal og Tottenham á Portúgalanum.

„Ég veit að þetta er einstakur leikmaður sem við erum með,“ sagði Lage um Neves í apríl.

„Það sem hann hefur gert á þessu tímabili er mjög gott. Ég held líka að hann geti sýnt sínar bestu hliðar í okkar leikkerfi. Hann setur liðið okkar á hærri stall.“

„Þegar þú ert með svona leikmann er best að hækka launin hans og gefa honum lengri samning. En hver veit, þegar maður er með leikmann eins og hann í þessari stöðu, sem getur varist og sótt og er alltaf fagmannlegur og frábær einstaklingur, þá munu stóru liðin mæta með hundrað milljónir punda til að kaupa svoleiðis leikmann.“

Neves hefur verið orðaður við United í nokkra mánuði, en félagið hefur eytt stærstum hluta félagsskiptagluggans í að eltast við De Jong. Neves hefur verið á mála hjá Wolves síðan hann gekk til liðs við félagið frá Porto árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×