Enski boltinn

Tuchel vill fleiri leikmenn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tuchel vill fleiri leikmenn.
Tuchel vill fleiri leikmenn. Craig Mercer/MB Media/Getty Images

Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, var ánægður að hefja leiktíðina í ensku úrvalsdeildinni á sigri. Hann segist þó vilja bæta við hóp sinn.

Chelsea vann nauman 1-0 sigur á Everton í síðasta leik dagsins í deildinni en Ítalinn Jorginho skoraði eina mark leiksins af vítapunktinum í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Tuchel var spurður út í leikmannahóp sinn og mögulegar viðbætur við hann eftir leik en Chelsea varð fyrir nokkurri blóðtöku í sumar þegar miðverðirnir Antonio Rudiger og Anders Christensen yfirgáfu félagið frítt.

Chelsea hefur verið orðað við bæði Wesley Fofana, miðvörð Leicester, og Frenkie de Jong, miðjumann Barcelona, en Tuchel kveðst opinn fyrir öllum viðbótum sem bjóðast.

Ef við getum bætt við, munum við bæta við. Ekkert endilega miðjumönnum sem fyrsta kost en við erum opnir fyrir öllu,

Ég vil fá nýja orku og ferskleika inn í hópinn til að færa okkur upp á næsta stig. Ég held að við gætum bætt við okkur frekara framlagi og meiri gæðum, sagði Tuchel.

Fátt virðist geta komið í veg fyrir brottför Frenkie de Jong frá Barcelona en þá þarf þó að koma til kaupandi sem er reiðubúinn að greiða fyrir hann háa fjárhæð. Barcelona þarf nauðsynlega að selja leikmenn til að geta skráð þá leikmenn sem þeir keyptu í sumar til leiks en de Jong var þrálátt orðaður við Manchester United fyrri hluta sumars, skipti sem hann kvaðst þó óspenntur fyrir.

Nýir eigendur Chelsea hafa sýnt að þeir eru reiðubúnir að eyða veglega í félagið en Marc Cucurella spilaði fyrsta leik sinn í dag eftir 50 milljón punda skipti sín frá Brighton.

Leicester City er sagt vilja um 80 milljónir punda fyrir Wesley Fofana og líklega mun þurfa að punga út svipaðri upphæð fyrir de Jong.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×