Enski boltinn

Tuchel segir að leikmenn Chelsea vilji ekki spila í bölvaðri níunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku fann sig ekki hjá Chelsea eftir að hann klæddist níunni.
Romelu Lukaku fann sig ekki hjá Chelsea eftir að hann klæddist níunni. Getty/Robbie Jay Barratt

Nían er vanalega ein eftirsóttasta treyjunúmerið hjá fótboltaliðum en ekki þó öllum. Leikmenn forðast hana hjá einu öflugasta fótboltaliði Englands.

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að leikmenn sínir neiti að spila í treyju númer níu. Ástæðan er að þeir telja að það hvíli álög á níunni hjá Chelsea. ESPN segir frá.

Síðasta dæmið um vandræði leikmanns Chelsea í níunni var hvernig fór fyrir Romelu Lukaku á síðustu leiktíð.

Chelsea keypti Lukaku frá Internazionale en hann náði ekki að standa undir væntingum efitr að hafa átt frábært tímabil á Ítalíu þar á undan. Lukaku er nú aftur farinn til Ítalíu á eins árs lánssamning.

Hann bættist þar með í hóp með leikmönnum eins og Gonzalo Higuain, Alvaro Morata, Radamel Falcao og Fernando Torres sem komu allir á Stamford Bridge með miklar væntingar en voru allir í basli í níunni.

Síðasta öfluga nían hjá Chelsea var líklega Jimmy Floyd Hasselbaink sem varð markakóngur á sínu fyrsta tímabili hjá liðinu í kringum aldamótin.

Tuchel var spurður út í það hvort enginn leikmaður liðsins ætlaði að spila í níunnni.

„Það eru álög á henni. Fólk segir mér það að það hvíli bölvun á henni. Það er ekki eins og við séum með hana lausa af taktískum ástæðum eða af því að við séum að bíða eftir nýjum leikmanni,“ sagði Thomas Tuchel.

„Það er ekki mikil eftirspurn eftir níunni hjá okkur. Leikmenn vilja stundum skipta um númer en það kemur svolítið á óvart að enginn vilji snerta á henni,“ sagði Tuchel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×