Enski boltinn

Sömdu við bakvörð Evrópumeistarana og ætla að nota hana í framlínunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rachel Daly komin í búning Aston Villa og með EM-gullið sem hún vann með enska landsliðinu á dögunum.
Rachel Daly komin í búning Aston Villa og með EM-gullið sem hún vann með enska landsliðinu á dögunum. Getty/Neville Williams

Enska landsliðskonan og nýkrýndi Evrópumeistarinn Rachel Daly hefur gert þriggja ára samning við enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa.

Hin þrítuga Daly hefur spilað undanfarin sex ára með bandaríska félaginu Houston Dash.

Daly byrjaði alla sjö leiki enska landsliðsins á EM í Englandi og hjálpaði liðinu að vinna sinn fyrsta Evrópumeistaratitil.

Daly spilaði sem vinstri bakvörður á Evrópumótinu en lék sem framherji hjá Houston.

„Þetta er mikilvægur samningur fyrir okkur. Rachel er toppframherji og hefur sannað sig sem markaskorari,“ sagði Carla Ward, knattspyrnustjóri Aston Villa.

„Með frábærri frammistöðu sinni sem bakvörður í sumar þá sýndi hún okkur líka að hún er leikmaður sem þú þarf á að halda í þínu liði,“ sagði Ward.

„Fyrir okkur mun hún samt spila sem framherji og ég get ekki beðið eftir því að sjá hana skora mörk fyrir okkur,“ sagði Ward.

Daly skoraði 33 mörk í 101 leik í bandarísku deildinni en hún skoraði 3 mörk í 9 leikjum á láni hjá West Ham árið 2020.

Villa liðið er á sínu þriðja tímabili í ensku úrvalsdeildinni en liðið hefur endað í tíunda og níunda sæti fyrstu tvö tímabilin.

Daly sagði hafa rætt við nokkur félög en að Villa hafi verið rétta félagið fyrir hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×