Enski boltinn

Klopp: Voru of fljótir að gagnrýna Darwin Nunez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darwin Nunez fagnar marki sínu á móti Fulham á Craven Cottage í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni.
Darwin Nunez fagnar marki sínu á móti Fulham á Craven Cottage í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Julian Finney

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósaði nýja framherja liðsins á blaðamannafundi fyrir leik á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Darwin Nunez fékk hrós frá Klopp fyrir líkamlegt atgervi og góða tækni og knattspyrnustjórinn skaut á gagnrýnendur Úrúgvæmannsins sem hann sagði að hafa verið allt of fljótir að gagnrýna Nunez.

Liverpool keypti Nunez á 75 milljónir punda frá Benfica í sumar og leit ekki sannfærandi út í 4-0 tapi fyrir Manchester United á undirbúningstímabilinu.

Hann svaraði því aftur á móti með því að skora fernu á móti RB Leipzig og skoraði einnig í 3-1 sigri á Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn.

„Fyrir fimm vikum, þegar við byrjuðum undirbúningstímabilið, þá spilaði hann sinn fyrsta leik og leit ekki vel út fyrir utanaðkomandi. Við vorum ekki í þeim hópi en það er klikkað hvað menn eru fljótir að dæma,“ sagði Jürgen Klopp.

„Allir geta séð það núna að hann er alvöru framherji. Hann lætur menn hafa fyrir sér og hann er öðruvísi leikmaður en við höfum haft. Hann er mjög fjörugur og orkumikill,“ sagði Klopp.

„Hann er líkamlega mjög sterkur og með mjög góða tækni. Það fylgir augljóslega í kjölfarið á því að vera búinn að koma sér betur fyrir og hafa meira trú á sér í nýju umhverfi,“ sagði Klopp.

Darwin Nunez skoraði líka í síðasta leik eftir að hafa komið inn á sem varamaður á móti Fulham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×