Enski boltinn

Sakaður um að nauðga konum í læstum neyðarrýmum

Sindri Sverrisson skrifar
Benjamin Mendy við komuna á réttarhöldin í Chester í Englandi í dag.
Benjamin Mendy við komuna á réttarhöldin í Chester í Englandi í dag. Getty/Christopher Furlong

Saksóknari lýsti því fyrir rétti í Englandi í dag hvernig knattspyrnumaðurinn Benjamin Mendy, leikmaður Manchester City, hefði ásamt félaga sínum gert sér að leik að nauðga ungum konum í afgirtri glæsivillu sinni í Cheshire-sýslu.

Fyrsti dagur réttarhaldanna yfir Mendy var í dag en þeir Louis Saha Mattuire, sem sagður er hafa hjálpað Mendy að finna konur, eru sakaðir um kynferðisbrot gegn alls þrettán konum.

Samkvæmt grein The Guardian segir saksóknari að Mendy og Saha hafi fundið margar kvennanna á næturklúbbum í Manchester. Þeir hafi nýtt frægð og velmegun Mendys, sem orðið hefur heimsmeistari með Frakklandi og Englandsmeistari með City, til að lokka konurnar á heimili hans þar sem brotið hafi verið gegn þeim.

Þetta hafi í raun orðið að „leik“ hjá þeim tveimur en brotin munu hafa átt sér stað frá október 2018 og fram til ársins 2021.

Tvær kvennanna segja að Mendy hafi nauðgað þeim í læstum rýmum, eða svokölluðum neyðarherbergjum (e. panic rooms). Við réttarhöldin í dag var birt myndband þar sem lögreglumaður útskýrði hvernig slík herbergi virka, og saksóknari ítrekaði að aðeins Mendy hefði vitað hvernig hægt væri að opna þessi rými. Það sé því auðvelt að gera sér í hugarlund að konunum hafi getað liðið eins og þær væru læstar inni.

Saksóknarinn sagði Mendy og Saha hafa vitað nákvæmlega hvað þeir væru að gera. „Þetta var ekkert þannig að þeir hefðu gleymt því hvernig hlutirnir virka, í einhverju kynferðislegu afskiptaleysi. Þeir vissu fullvel hvað þeir voru að gera. Þeir breyttu konuleit sinni í leik og ef að einhver meiddist eða fór illa út úr því – því miður. Látum það hverfa,“ sagði saksóknarinn.

Réttarhöldin halda áfram en þeir Mendy og Saha neita báðir allri sök, varðandi öll 22 ákæruatriðin sem um er að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×