Enski boltinn

Nunes verður dýrasti leikmaður Úlfanna frá upphafi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Matheus Nunes er við það að ganga í raðir Wolves.
Matheus Nunes er við það að ganga í raðir Wolves. Gualter Fatia/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Wolves hefur náð samkomulagi við portúgalska liðið Sporting CP um kaupverðið á miðjumanninum Matheus Nunes.

Úlfarnir munu greiða um 38 milljónir punda fyrir leikmanninn sem gerir hann að dýrasta leikmanni liðsins frá upphafi. Það samsvarar tæplega sex og hálfum milljarði króna.

Enn á þó eftir að ganga frá samningum við leikmanninn sjálfann, en liðið vonast til að landa þessum eftirsótta leikmanni sem fyrst.

Nunes er 23 ára miðjumaður sem hefur verið undir smásjánni hjá mörgum af stærstu liðum Evrópu. Hann á að baki átta leiki fyrir portúgalska landsliðið þar sem hann hefur skorað eitt mark og búist er við því að hann verði í leikmannahópi Portúgala á HM í Katar síðar á þessu ári.

Nunes gekk í raði Sporting CP árið 2019 og hefur síðan þá leikið 76 deildarleiki fyrir félagið. Eins og áður segir verður hann dýrasti leikmaður Wolves frá upphafi, en áður hafði félagið mest greitt 35,6 milljónir punda fyrir leikmann þegar Fabio Silva gekk í raðir félagsins árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×