Enski boltinn

Útskýrir áhuga landeiganda á Íslandi á því að eignast Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Jim Ratcliffe hefur ekki aðeins áhuga á íslenskum laxveiðiám heldur er hann einnig mikill fótboltaáhugamaður.
Sir Jim Ratcliffe hefur ekki aðeins áhuga á íslenskum laxveiðiám heldur er hann einnig mikill fótboltaáhugamaður. EPA-EFE/THIERRY CARPICO

Manchester United þarf á nýjum eigendum að halda. Því eru flestir sammála um nema kannski núverandi bandarískir eigendur. Nýjustu fréttir af hugsanlegum kaupanda ættu að gleðja stuðningsmenn félagsins en einn af aðalfréttamönnum Sky Sports útskýrði áhuga ríkasta manns Bretlandseyja að félaginu.

Flestir stuðningsmenn Manchester United eru búnir að fá algjörlega nóg af Glazer fjölskyldunni sem á félagið en gerir meira í því að taka út pening en að hjálpa því að halda í við bestu liðin. Í þeirra eignatíð hefur Manchester United misst stöðu sína á toppi enska fótboltans og miklir fjármunir hafa runnið út úr félaginu.

United hefur byrjað þetta tímabil á tapleikjum á móti Brighton og Brentford og það hefur aukið enn frekar pressuna á félaginu og skiptir þar engu hvort um er að ræða knattspyrnustjóra, leikmenn eða eigendur.

Það ríkir í raun ófremdarástand á Old Trafford og síðustu daga hafa komið fram fréttir um áhuga vel stæðra manna á að kaupa félagið.

Stærstu fréttirnar þar eru eflaust áhugi Sir Jim Ratcliffe, ríkasta manns Bretlands og landeiganda á Íslandi, á því að eignast Manchester United.

Ratcliffe er fótboltáhugamaður mikill, hann á íþróttafélög út um heim og reyndi að kaupa Chelsea síðasta vor án árangurs. Hann hefur hins vegar aldrei falið það að hann er stuðningsmaður Manchester United.

Það hljómar örugglega mjög vel í eyrum stuðningsmanna United að heyra af áhuga manns sem er ekki bara mjög vel stæður og mikill fótboltáhugamaður heldur enn stuðningsmaður félagsins frá barnæsku.

Kaveh Solhekol, fréttamaður á Sky Sport, útskýrði áhuga Sir Jim Ratcliffe og hvað standi í vegi fyrir því að hann eignist Manchester United. Það má finna útskýringu hans hér fyrir neðan.

Ratcliffe á meðal annars fótboltafélag í Frakklandi og Sviss. Það er haft eftir honum að peningar skipti engu máli heldur, að sem stuðningsmaður United, telji hann að nú sé kominn tími á að endurræsa félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×