Enski boltinn

Luis Suárez varar Darwin Nunez við: Þetta á eftir að verða verra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darwin Nunez gengur af velli eftir að hafa fengið rauða spjaldið í leik Liverpool og Crystal Palace á Anfield.
Darwin Nunez gengur af velli eftir að hafa fengið rauða spjaldið í leik Liverpool og Crystal Palace á Anfield. AP/Jon Super

Luis Suárez var frábær í búningi Liverpool en það gekk einnig mikið á hjá honum þann tíma sem hann spilaði á Anfield. Nú var landi hans Darwin Nunez fljótur að koma sér í vandræði.

Darwin Nunez missti stjórn á skapi sínu í leiknum á móti Crystal Palace um síðustu helgi og lét reka sig út af. Hann skallaði varnarmann Palace og fékk beint rautt spjald.

Nunez missir því af næstu leikjum Liverpool og þarf að hafa sig allan við til að losna við stimpilinn vandræðagemlingur.

Það hlutverk þekkir Suárez mjög vel. Það er ógleymanlegt þegar Suárez var uppvís að því að bíta andstæðinga sína þegar hann lék með Liverpool liðinu.

Suárez hefur nú varað landa sinn við að hann sé nú kominn með orð á sig í enska fótboltanum.

„Hér eftir munu þeir leita að þér tvisvar að þrisvar sinnum oftar. Þetta kemur frá vitleysingi sem gerði mistök og upplifði erfiða tíma en það gerði mig bara sterkari að standa aftur upp. Ekki gefa þeim fleiri tækifæri því þetta á eftir að verða verra,“ sagði Luis Suárez.

Luis Suárez stóð sig frábærlega með Liverpool og skoraði 82 mörk í 132 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum frá 2011 til 2014. Hann var seldur til Barcelona haustið eftir að hann beit andstæðing í leik með Úrúgvæ á HM.

Darwin Nunez hafði skorað í tveimur leikjum í röð eftir að hafa komið inn á sem varamaður en fyrsti byrjunarleikur hans í ensku úrvalsdeildinni endaði illa.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer hjá þessum rándýra sóknarmanni sem Liverpool borgaði 64 milljónir punda fyrir plús mögulega aðrar tuttugu milljónir punda í árangurtengda bónusa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×