Enski boltinn

Klopp ætlaði að hringja inn í útvarpsþátt til að láta fyrrum leikmann heyra það

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp var heldur hissa á ummælum Gabriel Agbonlahor um Manchester United.
Jürgen Klopp var heldur hissa á ummælum Gabriel Agbonlahor um Manchester United. Mike Hewitt/Getty Images

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool, segist hafa verið nálægt því að hringja inn í útvarpsþátt í vikunni eftir að hann heyrði ummæli Gabriel Agbonlahor um Manchester United. Agbonlahor fór þá ófögrum orðum um erkifjendur Liverpool í Manchester United.

Þessi fyrrverandi leikmaður Aston Villa ræddi um United-liðið í útvarpsþætti Talksport eftir 4-0 tap liðsins gegn Brentford. Agbonlahor hélt ekki aftur að orðum sínum og sagði að United væri eins og rústir einar.

United tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi mánudag, en Klopp segist hafa verið nálægt því að hringja inn í þáttinn til að láta framherjann fyrrverandi heyra það.

„Það sem hann sagði um United, ég var nálægt því að hringa inn og segja honum að hann væri líklega búinn að steingleyma því að hann hafi sjálfur verið leikmaður,“ sagði Klopp.

Gabriel Agbonlahor lék með Aston Villa frá 2005-2018.Neville Williams/Aston Villa FC via Getty Images

Agbonlahor var leikmaður Aston Villa frá 2005 til 2018, en í febrúar 2016 tapaði liðið 6-0 gegn Liverpool. Í lok tímabils féll Aston Villa úr ensku úrvalsdeildinni, en síðan þá hefur Klopp unnið deildina, Meistaradeild Evrópu og báðar bikarkeppnirnar á Englandi. Klopp virðist muna vel eftir þessum leik og nýtti tækifærið til að minnast á þessa niðurlægingu.

„Hann tapaði 6-0 á móti okkur á mínu fyrsta tímabili hjá Liverpool. Ég man ekki eftir því að hann hafi verið eitthvað hugarfarsskrímsli (e. Mentality monster),“ sagði Klopp, en „Mentality monster7 er hugtak sem hann notar oft um leikmenn sína hjá Liverpool.

„Þetta voru ótrúleg ummæli,“ hélt Klopp áfram. „Ef fyrrverandi leikmenn eru nú þegar farnir að tala svona þá geturðu rétt ímyndað þér hvernig allir aðrir tala,“ sagði Klopp að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×