Enski boltinn

Á förum frá Arsenal | Hvert mark kostaði 4,5 milljónir

Valur Páll Eiríksson skrifar
Pépé náði aldrei að finna sig í Lundúnum.
Pépé náði aldrei að finna sig í Lundúnum. Stuart MacFarlane/Arsenal FC via Getty Images

Nicolas Pépé er sagður á leið til Nice í Frakklandi á láni frá Arsenal. Óhætt er að segja að Fílabeinsstrendingurinn hafi ekki slegið í gegn í Lundúnum.

Pépé var einn heitasti bitinn á markaðnum sumarið 2019 en hann hafði þá skorað 22 deildarmörk og lagt upp ellefu að auki fyrir Lille í frönsku úrvalsdeildinni tímabilið áður. Mörg stórlið í Evrópu litu hýru auga til kappans en Arsenal vann kapphlaupið um hann.

Hann varð dýrasti leikmaður í sögu félagsins er það borgaði Lille 72 milljónir punda fyrir þjónustu hans. Hann fór hægt af stað og náði ekki að finna markaskónna sem höfðu gert hann svo eftirsóttan.

Hann skoraði fimm mörk á sinni fyrstu leiktíð en það virtist þó ætla að birta til leiktíðina 2020-21, þar sem hann skoraði tíu mörk í deild og sex í Evrópu. Hann féll hins vegar úr náðinni og hefur aldrei verið ofarlega á lista Mikels Arteta frá því að hann tók við liðinu. Hann lék 20 leiki í deild á síðustu leiktíð, flestalla af varamannabekknum, og skoraði aðeins eitt mark.

Hann er nú sagður á leið til Nice í Frakklandi á láni en hann mun þar hitta annan fyrrum Arsenal-mann í Aaron Ramsey, sem kom til liðsins frá Juventus í sumar. Þeir náðu þó ekki að leika saman í Lundúnum þar sem Ramsey fór til Juventus sama sumar og Pépé fór til Arsenal.

Pépé skoraði alls 16 deildarmörk á þremur leiktíðum fyrir Arsenal og borgaði félagið því 4,5 milljónir punda, tæplega 750 milljónir króna, fyrir hvert þeirra ef litið er til kaupverðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×