Enski boltinn

Mikil vonbrigði hjá bæði Jóhanni Berg og Jóni Daða

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jón Daði Böðvarsson og félagar þurftu að þola tap.
Jón Daði Böðvarsson og félagar þurftu að þola tap. Getty/Dave Howarth

Jóhann Berg Guðmundsson var í fyrsta sinn í leikmannahópi Burnley, en kom þó ekki við sögu, er liðið gerði vonbrigða jafntefli í ensku B-deildinni í fótbolta í dag. Jón Daði Böðvarsson og félagar í Bolton þurftu að þola tap.

Jóhann Berg hefur verið meiddur síðan í febrúar en var í fyrsta skipti í leikmannahópi Burnley síðan þá í dag. Hann kom þó ekki við sögu er Blackpool kom í heimsókn á Turf Moor.

Josh Brownhill kom Burnley þar yfir á 3. mínútu og Nathan Tella tvöfaldaði forskotið átta mínútum síðar. Theodor Corbeanu minnkaði muninn fyrir Blackpool á 21. mínútu en Tella skoraði öðru sinni á 33. mínútu og staðan 3-1 fyrir Burnley í hálfleik.

Þannig stóð fram á 74. mínútu þegar Shayne Lavery minnkaði muninn í 3-2 og aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Jerry Yates leikinn fyrir Blackpool.

Von Burnley varð bjartari þegar Sonny Carey úr liði Blackpool fékk beint rautt spjald á 83. mínútu en Burnley voru aðeins manni færri í tvær mínútur því Hollendingurinn ungi Ian Maatsen fékk einnig beint rautt spjald á 85. mínútu.

3-3 fór leikurinn og missti Burnley því niður tveggja marka forystu. Eftir sigur í fyrstu umferð hefur liðið mistekist að vinna síðustu fjóra og er með sex stig í 15. sæti eftir fimm leiki. Blackpool er með sjö stig í ellefta sæti.

Jón Daði kom af bekknum í tapi

Jón Daði Böðvarsson kom inn á sem varamaður á 62. mínútu hjá Bolton sem tapaði 2-0 fyrir Sheffield Wednesday í ensku C-deildinni. George Byers og Liam Palmer skoruðu mörk Wednesday í fyrri hálfleik.

Tapið er dýrt í jafnri deildinni en Sheffield fór upp fyrir Bolton, í fjórða sæti með tíu stig, en Bolton er í því sjöunda með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×