Enski boltinn

Klopp segir að Liverpool eigi að fá stigin verði stórleiknum frestað

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp vill að Liverpool fái stigin þrjú ef leik liðsins gegn Manchester United verður frestað vegna mótmæla stuðningsmanna United.
Jürgen Klopp vill að Liverpool fái stigin þrjú ef leik liðsins gegn Manchester United verður frestað vegna mótmæla stuðningsmanna United. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Stuðningsmenn Manchester United hafa boðað til mótmæla fyrir utan heimavöll liðsins, Old Trafford, fyrir stórleik United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi mánudag. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að sitt lið ætti að fá þrjú stig ef fresta þarf leiknum vegna mótmælanna.

Í maí á seinasta ári var leik liðanna frestað eftir að stuðningsmenn United marseruðu inn á Old Trafford til að mótmæla eigendum liðsins, Glazer-fjölskyldunni. Nú eru önnur slík mótmæli framundan, en stuðningsmenn liðsins ætla sér einmitt að mótmæla þessum sömu eigendum á mánudagskvöld þegar Liverpool mætir í heimsókn.

„Er ég með einhver plön ef leiknum verður frestað? Já, fara bara heim með rútunni,“ sagði Klopp um væntanleg mótmæli.

„Ég vona virkilega að það gerist ekki, en ef það gerist þá finnst mér að við eigum að fá stigin.“

„Þetta mál kemur okkur ekkert við og ef stuðningsmennirnir vilja ekki að leikurinn fari fram þá er ekki hægt að troða honum bara einhversstaðar inn í nú þegar mjög annasamt tímabil.“

„Fólk segir okkur að þetta verði í lagi, að við munum mæta þarna og vonandi spila leikinn og fara svo heim. En í svona stöðu þá á hitt liðið að fá stigin af því að það lið kemur þessu ekkert við og það lið er búið að undirbúa sig fyrir þennan leik,“ sagði Klopp að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×