Enski boltinn

Baulað á stigalaust lið West Ham sem hefur ekki skorað mark

Valur Páll Eiríksson skrifar
David Moyes og Kevin Nolan þurfa að taka á honum stóra sínum til að snúa strembnu gengi West Ham við.
David Moyes og Kevin Nolan þurfa að taka á honum stóra sínum til að snúa strembnu gengi West Ham við. Craig Mercer/MB Media/Getty Images

Brighton & Hove Albion vann 2-0 útisigur á West Ham United á Lundúnavellinum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. West Ham er á meðal liða sem hefur eytt mestu í leikmannakaup í sumar en það gengur hvorki né rekur í upphafi deildarinnar.

West Ham hefur eytt um 112 milljónum punda í leikmannakaup í sumar, og selt fyrir aðeins 15 milljónir, en aðeins Nottingham Forest og Chelsea hafa eytt meiru umfram sölur.

Thilo Kehrer, miðvörðurinn sem kom frá Paris Saint-Germain í vikunni, var eini nýliðinn í byrjunarliði West Ham sem var án sigurs fyrir heimsókn Brighton í dag.

Kehrer byrjaði ekki vel en hann braut á Danny Welbeck við vítateigslínuna sem myndbandsdómarar staðfestu að var innan teigs. Argentínumaðurinn Alexis Mac Allister steig á punktinn og kom Brighton í forystu á 22. mínútu.

Belginn Leandro Trossard skoraði þá síðara mark Brighton í leiknum á 66. mínútu eftir stoðsendingu Pascals Gross.

Tapið sendir West Ham niður fyrir Manchester United í botnsæti deildarinnar þar sem liðið er stigalaust og hefur ekki enn skorað mark í deildinni. Baulað var á leikmenn liðsins bæði þegar flautað var til hálfleiks og eftir leik.

Brighton hefur farið vel af stað og er í 4. sæti með sjö stig, jafnt Tottenham og Leeds að stigum sem eru í sætunum fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×