Enski boltinn

Búast við betrumbættu tilboði United í Antony

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Manchester United er á höttunum eftir Antony.
Manchester United er á höttunum eftir Antony. Vísir/Getty

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United er sagt ekki vera tilbúið að gefast upp á vonum sínum að fá brasilíska vængmanninn Antony frá Ajax í sínar raðir áður en félagsskiptaglugginn lokar í lok ágústmánaðar.

Antony lét ekki sjá sig á æfingum hjá Ajax í vikunni og í gær var hann ekki í leikmannahóp liðsins þegar Ajax vann 0-1 sigur gegn Sparta Rotterdam. Fjarvera Antony frá æfingum hefur ýtt undir þær sögusagnir að hann vilji yfirgefa Ajax og fara til United.

Anotny gekk í raðir Ajax árið 2020, en það var Erik ten Hag, núverandi knattspyrnustjóri United, sem fékk hann til félagsins. Hann skoraði tólf mörk og lagði upp önnur tíu er Ajax tryggði sér hollenska meistaratitilinn á seinasta tímabili.

United hefur boðið Ajax 80 milljónir evra fyrir leikmanninn, en því tilboði var hafnað. Það samsvarar tæplega ellefu og hálfum milljarði íslenskra króna, en samkvæmt heimildum Sky Sports var Antony ekki tilbúinn til að spila leik Ajax í gær þar sem hann var „ekki í lagi andlega“ eftir tilboðið.

Þrátt fyrir að enska félagið sé sagt ætla sér að betrumbæta tilboðið í Antony er ekki talið að United ætli sér að bjóða meira en 80 milljónir evra. Samkvæmt heimildarmönnum Sky Sports ætlar félagið sér frekar að bjóða sömu upphæð, en breyta frekar greiðslufyrirkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×