Enski boltinn

West Ham fær ítalskan landsliðsmann frá Chelsea

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Emerson Palmieri er genginn til liðs við West Ham frá Chelsea.
Emerson Palmieri er genginn til liðs við West Ham frá Chelsea. Matteo Ciambelli/DeFodi Images via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið West Ham hefur gengið frá kaupum á ítalska landsliðsmanninum Emerson Palmieri frá nágrönnum sínum í Chelsea.

Palmieri kemur til West Ham á 15 milljónir punda, en það samsvarar rétt rúmlega tveimur og hálfum milljarði íslenskra króna. Félagið greiðir 13 milljónir strax, en tvær milljónir geta svo bæst við í gegnum árangurstengdar bónusgreiðslur.

Þessi 28 ára bakvörður skrifar undir fjögurra ára samning við West Ham með möguleika á eins árs framlengingu.

Hann lék á láni hjá Lyon í frönsku úrvalsdeildinni á seinasta tímabili, en Palmieri hefur átt í erfiðleikum með að festa sig í sessi hjá Chelsea síðan hann gekk til liðs við félagi frá Roma árið 2018.

Palmieri er sjöundi leikmaðurinn sem West Ham fær til liðs við sig í sumar. Áður hafði liðið fengið þá Gianluca Scamacca, Nayef Aguerd, Maxwel Cornet, Flynn Downes, Thilo Kehrer og Alphonse Areola.

Hann er fæddur í Brasilíu og lék með U17 ára landsliði Brassa á sínum yngri árum. Árið 2017 fékk hann þó ítalskt ríkisfang og hefur leikið 27 leiki fyrir ítalska A-landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×