Enski boltinn

„Ég er hérna fyrir þessa leiki”

Atli Arason skrifar
Erling Haaland fagnar jöfnurnarmarki sínu gegn Palace í dag.
Erling Haaland fagnar jöfnurnarmarki sínu gegn Palace í dag. Getty Images

Manchester City tókst að koma til baka gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í dag og vinna 4-2 eftir að hafa verið 0-2 undir í hálfleik. Norski markahrókurinn Erling Haaland skoraði þrennu í leiknum og var allt í öllu í endurkomu Englandsmeistarana. Haaland segist hafa komið til City til þess að spila akkúrat svona leiki.

„Ég er hérna fyrir þessa leiki,” sagði Erling Haaland eftir leik. “Að ná að snúa leiknum við þegar blæs á móti, það er frábær tilfinning.“

„Þetta snýst um að klára verkið. Þetta er það sem við gerum hérna og það sem City hefur verið að gera undanfarið,“ svaraði Haaland aðspurður af því hvernig liðinu tókst að snúa leiknum við eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik.

Haaland, sem fagnaði 22 ára afmæli sínu í síðasta mánuði, skoraði sína fyrstu þrennu í ensku úrvalsdeildinni í leiknum en þrennan var sú þrettánda á hans stutta ferli.

„Það er alltaf frábær tilfinning að skora mark og tilfinningin er mun betri eftir þrennu,“ sagði Erling Haaland

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var sammála Haaland, að leikmaðurinn væri gerður fyrir svona leiki.

„Alveg pottþétt fyrri svona leiki. Við erum ekki að gera neitt sérstakt fyrir hann sem hann hefur ekki upplifað áður annars staðar en það er mikilvægt fyrir hann að skora mörk. Hann hefur mikið markanef en í þriðja markinu sem hann skoraði, að sýna þennan styrkleika til að halda varnarmanninum fjarri og hafa líka þessi gæði til að setja boltann í netið,“ sagði Guardiola


Tengdar fréttir

Haaland skoraði þrennu í endurkomusigri City

Norðmaðurinn Erling Braut Haaland var sjóðandi heitur er Englandsmeistarar Manchester City komu til baka og unnu 4-2 sigur gegn Crystal Palace eftir að hafa lent 0-2 undir í fyrri hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×