Enski boltinn

West Ham að ganga frá kaupum á brasilískum landsliðsmanni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lucas Paqueta er að ganga í raðir West Ham.
Lucas Paqueta er að ganga í raðir West Ham. Leandro Amorim/Eurasia Sport Images/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið West Ham er við það að ganga frá kaupum á brasilíska landsliðsmanninum Lucas Paqueta frá franska liðinu Lyon.

West Ham greiðir 36,5 milljónir punda fyrir leikmanninn, en við þá upphæð gætu bæst 14,4 milljónir punda í gegnum árangurstengdar bónusgreiðslur. 

Verði bónusgreiðslurnar virkjaðar verður Paqueta dýrasti leikmaður West Ham frá upphafi.

Paqueta kemur til West Ham frá Lyon í Frakklandi, en þar hefur hann leikið frá árinu 2020. Þessi 25 ára sóknarsinnaði miðjumaður lék áður fyrir Ítalíumeistara AC Milan, en þaðan kom hann frá uppeldisfélagi sínu í Brasilíu, Flamengo.

Þá á Paqueta að baki 33 leiki fyrir brasilíska landsliðið þar sem hann hefur skorað sjö mörk.

Paqueta verður níundi leikmaðurinn sem West Ham fær í sínar raðir í sumar. Áður hafði félagði fengið þá Emer­son Pal­mieri, Thi­lo Kehrer, Maxwel Cornet, Gi­anluca Scamacca, Flynn Down, Alp­hon­se Areola, Nayef Agu­erd og Pat­rick Kelly.

West Ham hefur farið illa af stað í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og er eina liðið sem enn er án stiga nú þegar fjórða umferð er rúmlega hálfnuð. West Ham fær þó tækifæri til að koma sér í gang í dag þegar liðið heimsækir Aston Villa klukkan 13:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×