Enski boltinn

Ferdinand: Ron­aldo verður bál­reiður með bekkjar­setu

Atli Arason skrifar
Ronaldo og Ferdinand léku saman hjá Manchester United frá 2003 til 2009.
Ronaldo og Ferdinand léku saman hjá Manchester United frá 2003 til 2009. Getty Images

Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United, segir að Cristiano Ronaldo sé og verði öskureiður með að sitja á varamannabekk liðsins.

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur byrjað síðustu tvo leiki liðsins með Ronaldo á bekknum en United vann báða leikina. Framtíð Ronaldo hjá Manchester United hefur verið mikið umræðunni í sumar en Ferdinand segir að sinn fyrrum samherji muni ekki sætta sig við bekkjarsetu hjá United í vetur.

„Hvort sem hann verður áfram eða ekki, það veit enginn okkar. Þekkjandi Ronaldo þá veit ég fyrir víst að hann er bálreiður akkúrat núna,“ sagði Ferdinand í Vibe with Five hlaðvarpinu sínu í gærdag. 

Ferdinand segir enn fremur að sumir leikmenn sætti sig kannski við að sinna hlutverki varamanns en Ronaldo taki það alls ekki í mál.

„Það skiptir engu máli hver er að byrja á undan honum. Þú nærð ekki þessum hæðum sem hann hefur náð á sínum ferli með því að vera einhver sem samþykkir það að vera á varamannabekknum hjá liði sem er ekki einu sinni að spila í Meistaradeildinni.“

Ten Hag spilar mikinn pressubolta og einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort Ronaldo passi inn í leikstíl knattspyrnustjórans.

„Hvað sem hver segir um hlaupagetu, pressu o.s.frv. þá mun hann samt sitja á bekknum og hugsa um þau 24 mörk sem hann skoraði á síðasta tímabili. Það erfiðasta í fótbolta er að skora mörk og hann gerði það 24 sinnum á síðasta ári,“ sagði Rio Ferdinand sem býst þó ekki við því að Ronaldo muni yfirgefa Manchester United í sumar, einfaldlega vegna þess að ekkert annað lið sé tilbúið að borga launakröfur hans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×