Enski boltinn

Tuchel: „Þarf ekki mikið til að vinna okkur“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thomas Tuchel var eðlilega ósáttur eftir tap sinna manna gegn Southampton í kvöld.
Thomas Tuchel var eðlilega ósáttur eftir tap sinna manna gegn Southampton í kvöld. Mike Hewitt/Getty Images

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, var sár og svekktur eftir 2-1 tap liðsins gegn Southampton í fimmtu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Hann segir að liðið eigi erfitt með einbeitingu og að önnur lið þurfi ekki að gera mikið til að vinna Chelsea eins og staðan er núna.

„Við höfum byrjað vel í öllum okkar leikjum, en við eigum augljóslega erfitt með að halda einbeitingu og finna jafnvægi í leikjum. Við eigum erfitt með að koma okkur aftur inn í leikina ef hlutirnir ganga ekki okkur í hag. Hlutirnir voru að ganga okkur í hag í kvöld, en svo lentum við í vandræðum þegar þeir jöfnuðu metin,“ sagði Tuchel eftir leik kvöldsins.

„Ég veit ekki hvort það sé rétt að segja að ég hafi áhyggjur. Ég hef klárlega ekki gaman að því að tapa. Þetta er í annað skiptið á tímabilinu og ég held að það þurfi ekki mikið til að vinna okkur og það er eitthvað sem mér líkar ekki.“

„Við reynum að vinna leiki og við þurfum að komast að því eins fljótt og mögulegt er hvernig við förum að því. Ég skil heldur ekki hvernig við erum í þessari stöðu með öll þessi meiðsli inni á miðsvæðinu.“

„Mér fannst við búa til nokkur hálffæri á fyrstu tuttugu mínútunum, en við áttum í erfiðleikum með að skora. Það er ekki eitthvað sem er glænýtt fyrir okkur og það er ekki endilega eitthvað sem á að verða til þess að þú tapir fótboltaleikjum. Það er hægt að vinna 1-0,“ sagði Tuchel að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×