Enski boltinn

Viðurkenna að VAR hafi rænt mörkum af West Ham og Newcastle

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jarrod Bowen var talinn hafa brotið á Edouard Mendy, markverði Chelsea, og því fékk mark Maxwels Cornet fyrir West Ham United ekki að standa.
Jarrod Bowen var talinn hafa brotið á Edouard Mendy, markverði Chelsea, og því fékk mark Maxwels Cornet fyrir West Ham United ekki að standa. getty/Mike Hewitt

Enska dómarasambandið hefur viðurkennt að það hafi verið rangt að dæma mörk af West Ham United og Newcastle United með hjálp myndbandsdómgæslu (VAR) í leikjum liðanna í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Í báðum tilfellum dæmdi dómarinn mörkin góð og gild en dómunum var snúið við eftir mörkin höfðu verið skoðuð á myndbandi. Flestir stóðu á gati yfir ákvörðunum og David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham, var sérstaklega ósáttur. Hann sagði að það hefði verið skandall að dæma mark Hamranna gegn Chelsea af.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að dómarasambandið hafi viðurkennt að mörkin hafi verið ranglega tekin af West Ham og Newcastle. Enska úrvalsdeildin óskaði eftir því að atvikin tvö yrðu skoðuð og dómarasambandið hefur orðið við þeirri bón.

Maxwel Cornet jafnaði fyrir West Ham gegn Chelsea á 90. mínútu en markið var dæmt af vegna brots Jarrods Bowen á Eduoard Mendy, markverði Chelsea sem vann leikinn, 2-1.

Í leik Newcastle og Crystal Palace var sjálfsmark Tyricks Mitchell dæmt af vegna þess að Joe Willock var talinn hafa brotið á markverði Palace, Vicente Guaita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×