Enski boltinn

Terry spenntur: „Hann tikkar í öll box“

Valur Páll Eiríksson skrifar
John Terry er spenntur fyrir Graham Potter.
John Terry er spenntur fyrir Graham Potter. Vísir/Getty

John Terry, fyrrum fyrirliði Chelsea til fjölda ára, kveðst mjög spenntur fyrir möguleikanum að Graham Potter þjálfi félagið. Thomas Tuchel var sagt upp störfum í morgun.

Chelsea er þegar komið í viðræður við Brighton og ætlar að setja sig í samband við Potter samkvæmt breskum fjölmiðlum. Brighton mun ekki setja sig gegn viðræðunum samkvæmt sömu fréttum en Chelsea mun þá þurfa að greiða uppsagnarákvæði upp á 16 milljónir punda.

Potter hefur unnið sig jafnt og þétt upp metorðastigann á sínum þjálfaraferli sem hófst hjá Östersund í Svíþjóð. Þar vann hann mikið þrekvirki og kom smáliðinu úr neðstu deild í þá efstu, vann sænska bikarinn og komst upp úr riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Hann náði góðum árangri á einni leiktíð með Swansea í B-deildinni á Englandi áður en hann tók við Brighton árið 2019 og hefur stýrt liðinu við góðan orðstír.

John Terry, sem lék með Chelsea frá 1998 til 2017 og vann fimm Englandsmeistaratitla með liðinu, kveðst spenntur fyrir þeim möguleika að sjá Potter á hliðarlínunni hjá Chelsea.

„Hversu góður er Graham Potter? Ég elska spilamennsku Brighton og hann verður að teljast á meðal bestu ungu þjálfaranna í heiminum. Hann tikkar í hvert box fyrir mér,“ sagði Terry á samfélagsmiðlinum Twitter í dag.

Zinedine Zidane og Mauricio Pochettino eru einnig sagðir ofarlega á lista Chelsea og félagið myndi ekki þurfa að greiða lausnargjald fyrir þá, líkt og Potter, enda báðir atvinnulausir sem stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×