Enski boltinn

Starfslið Brighton rúið inn að skinni | Leikmaður tekur við

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lallana mun stýra Brighton um helgina ásamt Andrew Crofts, þjálfara U21 árs liðs félagsins.
Lallana mun stýra Brighton um helgina ásamt Andrew Crofts, þjálfara U21 árs liðs félagsins. James Williamson - AMA/Getty Images

Brighton Hove & Albion missti ekki ekki aðeins aðalþjálfara sinn Graham Potter til Chelsea í dag, heldur lungann úr starfsliði aðalliðs félagsins. Leikmaður félagsins er í tveggja manna teymi sem mun stýra liðinu um helgina.

Potter skrifaði undir fimm ára samning sem nýr þjálfari Chelsea í dag eftir að Thomasi Tuchel var sagt upp störfum hjá liðinu í gærmorgun. Hann tók með sér fjóra samstarfsfélaga í aðalliðsteymi Brighton.

Aðstoðarþjálfarinn Billy Reid fer sömu leið ásamt markmannsþjálfaranum Ben Roberts, aðalliðsþjálfurunum Bjorn Hamberg og Bruno Saltor, auk Kyle Macauley, sem var í leikmannakaupateymi Brighton (e. recruitment).

Samkvæmt fregnum breskra fjölmiðla borgaði Chelsea 21 og hálfa milljón punda fyrir starfsmennina fimm.

Fáir standa því eftir í þjálfarateymi Brighton fyrir komandi leik við Bournemouth á laugardaginn kemur. Andrew Crofts, þjálfari U21 árs liðs Brighton mun halda um stjórnartaumana, ásamt leikmanni liðsins Adam Lallana.

Lallana er 34 ára gamall miðjumaður og hefur verið hjá Brighton frá árinu 2020 þegar hann kom frá Liverpool. Hann hefur tekið þátt í þremur deildarleikjum á þessari leiktíð en er sagður mikill leiðtogi innan liðsins og sé farinn að leiða hugann að þjálfun eftir að ferlinum lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×