Enski boltinn

Kanté gæti farið frítt frá Chelsea

Sindri Sverrisson skrifar
N'Golo Kanté gæti verið að spila sína síðustu leiktíð fyrir Chelsea.
N'Golo Kanté gæti verið að spila sína síðustu leiktíð fyrir Chelsea. Getty

Þó að franski landsliðsmiðjumaðurinn N‘Golo Kanté hafi verið lykilmaður hjá Chelsea um árabil þá hafa meiðsli sett strik í reikninginn síðustu ár. Hann gæti yfirgefið félagið frítt næsta sumar.

Kanté á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea og þessi 31 árs gamli leikmaður hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning.

The Athletic greinir frá því að Chelsea hafi boðið Kanté samning til tveggja ára, með möguleika á eins árs framlengingu, en að það dugi Frakkanum ekki.

Kanté vill sjálfur fá lengri samning, ekki síst með tilliti til þess að jafnaldri hans, Kalidou Koulibaly, fékk samning til fjögurra ára þegar hann var keyptur í sumar.

Ástæðan fyrir því að forráðamenn Chelsea vilja ekki gera lengri samning mun vera vandræði hans vegna meiðsla.

The Athletic segir að tvö félög í ensku úrvalsdeildinni og fjöldi félaga erlendis, á Spáni í Þýskalandi og Frakklandi, fylgist nú með þróun mála hjá Kanté.

Chelsea keypti Kanté frá Leicester árið 2016 og hann hefur síðan þá leikið 262 leiki fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×