Enski boltinn

Boehly stingur upp á Stjörnuleik að amerískri fyrirmynd

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Todd Boehly vill að enska úrvalsdeildin taki blaðsíðu úr bók amerískra íþrótta.
Todd Boehly vill að enska úrvalsdeildin taki blaðsíðu úr bók amerískra íþrótta. Craig Mercer/MB Media/Getty Images

Todd Boehly, einn af nýjum eigendum enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea, vill taka blaðsíðu úr bók amerískra íþrótta og setja á laggirnar Stjörnuleik í ensku úrvalsdeildinni til að afla fjár fyrir neðri deildir landsins.

Boehly þekkir Stjörnuleiki í amerískum íþróttum vel, enda á hann einnig hlut í hafnaboltaliðinu Los Angeles Dodgers og körfuboltaliðinu Los Angeles Lakers. Hann var mættur á SALT-ráðstefnuna í New York í seinustu viku og viðraði þar hugmyndir sínar um breytingar á enskum fótbolta.

„Í rauninni vona ég að enska úrvalsdeildin geti lært aðeins af amerískum íþróttum,“ sagði Boehly.

„Af hverju er til dæmis ekki sérstakt mót fyrir neðstu fjögur liðin í deildinni? Og af hverju er ekki Stjörnuleikur?“

„Fólk er alltaf að tala um meiri pening fyrir pýramídan,“ hélt Boehly áfram og á þá við deildirnar á Englandi.

„MLB [Major League Baseball, bandaríska atvinnumannadeildin í hafnabolta] var með Stjörnuleik í Los Angeles í ár og það söfnuðust 200 milljónir dollara á mánudegi og þriðjudegi. Það væri hægt að hafa Stjörnuleik á milli norðurs og suðurs í ensku úrvalsdeildinni til að afla fjár auðveldlega fyrir pýramídan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×