Enski boltinn

Brighton búið að finna eftirmann Potter

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roberto De Zerbi tekur við Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Roberto De Zerbi tekur við Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Emmanuele Ciancaglini/CPS Images/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Brighton & Hove Albion hefur ráðið ítalska knattspyrnuþjálfarann Roberto de Zerbi til starfa.

Frá þessu er greint á samfélagsmiðlum félagsins en De Zerbi tekur við Brighton af Graham Potter sem yfirgaf félagið fyrir tíu dögum og tók þá við Chelsea eftir að Þjóðverjinn Thomas Tuchel var látinn fara.

De Zerbi er aðeins 43 ára en á þrátt fyrir það að baki tæplega tíu ára þjálfaraferil. Hann hefur meðal annars þjálfað Benevento og Sassuolo í ítölsku úrvalsdeildinni.

Síðasta þjálfarastarf hans var þó hjá úkraínska liðinu Shaktar Donetsk, en hann yfirgaf félagið í sumar vegna stríðsins í landinu.

De Zerbi skrifar undir fjögurra ára samning við Brighton og tekur þjálfarateymi sitt frá tíma sínum hjá Shaktar með sér. Allir eiga þeir þó eftir að fá atvinnuleyfi á Englandi, en félagið vonast til að geta klárað þau mál fyrir næsta deildarleik liðsins sem er gegn Liverpool þann 1. október.

De Zerbi tekur við Brighton í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 13 stig eftir sex leiki. Liðið hefur unnið fjóra leiki í upphafi tímabils og aðeins tapað einum. Brighton mætir þó Liverpool, Tottenham, Manchester City og Chelsea í næstu sex deildarleikjum sínum og því er ljóst að þjálfarinn byrjar tíma sinn hjá félaginu á virkilega erfiðu prófi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×