Enski boltinn

Úr Juventus í flatbökubikarinn í Rochdale

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arthur Melo í leik gærkvöldsins.
Arthur Melo í leik gærkvöldsins. Lewis Storey/Getty Images

Arthur Melo, nýjasti leikmaður Liverpool á Englandi, vinnur í því að komast í leikform eftir skipti hans frá Juventus til félagsins á lokadegi félagsskiptagluggans, þann 1. september.

Arthur lék á dögunum leik U21 árs liðs Liverpool við U21 lið Leicester og var aftur í byrjunarliði U21 árs liðsins er það keppti í Rochdale í gærkvöld. Liðið mætti þar aðalliði Rochdale í Papa John's-bikarnum, en örfá ár eru síðan að varalið úrvalsdeildarfélaga fengu þar keppnisrétt.

Keppnin hefur sögulega verið á milli liða í neðri deildum á Englandi, eiginlegur deildabikar neðri deilda, en Guðjón Þórðarson stýrði Stoke til sigurs í keppninni á sínum tíma, árið 2000, en þá var hún kölluð Framrúðubikarinn hér heima.

Arthur spilaði sextíu mínútur með unglingunum hjá Liverpool sem þurftu að þola 1-0 tap. Honum var skipt af velli fyrir annan eldri mann, Jay Spearing, eftir um klukkutíma leik. Spearing lék á sínum tíma 30 leiki fyrir Liverpool frá 2008 til 2013 en er í dag leikmaður og þjálfari U21 árs liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×