Enski boltinn

Nýr stjóri á átján leikja fresti og nú er það Bilic

Sindri Sverrisson skrifar
Slaven Bilic er mættur aftur í enska boltann.
Slaven Bilic er mættur aftur í enska boltann. Getty

Enska knattspyrnufélagið Watford hefur ráðið Slaven Bilic, fyrrverandi þjálfara Króatíu og West Ham, sem knattspyrnustjóra til næstu átján mánaða.

Watford heldur þar með áfram að skipta út knattspyrnustjórum eins og síðustu ár en félagið rak Rob Edwards eftir að hann hafði aðeins stýrt liðinu í ellefu leikjum.

Edwards, sem er 39 ára, var ráðinn til Watford í maí eftir að hafa stýrt Forest Green Rovers upp úr ensku D-deildinni.

Að meðaltali hafa síðustu knattspyrnustjórar Watford, á síðustu þremur árum, aðeins enst í 18 leiki. Bilic er sá níundi sem ráðinn er til félagsins síðan þá og kemur á eftir kunnum stjórum á borð við Roy Hodgson, Claudio Ranieri og fleiri.

Watford er í 10. sæti ensku B-deildarinnar með 14 stig eftir 10 leiki en liðið gerði 2-2 jafntefli við Sunderland í síðasta leik og hefur þar með leikið þrjá leiki í röð án sigurs. Liðið er níu stigum á eftir toppliði Sheffield United.

Hinn 54 ára Bilic starfaði síðast í enska boltanum þegar hann stýrði WBA 2019-2020 og hann stýrði einnig West Ham á árunum 2015-2017. Síðasta starf hans var hins vegar í Kína þar sem hann stýrði Beijing Guoan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×